Ferill 1181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2260  —  1181. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um húsnæðismarkað.


     1.      Hvaða opinberu aðilar safna hagtölum og gögnum um húsnæðismarkaðinn og þróun hans?
    Þeir opinberu aðilar sem safna hagtölum og gögnum um húsnæðismarkaðinn og þróun hans eru Hagstofa Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Sveitarfélögin vinna einnig árlega stafrænar húsnæðisáætlanir sem eru birtar á vef HMS.

     2.      Telur ráðherra að yfirsýn stjórnvalda um húsnæðismarkaðinn og þróun hans yrði betri ef einn opinber aðili hefði þetta verkefni með höndum?
    HMS safnar saman og birtir meginþorra þessara upplýsinga en Hagstofa Íslands framkvæmir lífskjararannsókn árlega sem gefur mynd af stöðu fólks á húsnæðismarkaði. HMS heldur m.a. úti mannvirkjaskrá þar sem er að finna upplýsingar um stærðir og eiginleika mannvirkja, framvindu á byggingartíma, upplýsingar sem nýtast við eftirlit með mannvirkjagerð, svo sem byggingarleyfi, úttektir byggingarstjóra og byggingarfulltrúa. Þá hefur fasteignaskráin verið flutt frá Þjóðskrá Íslands yfir til HMS. HMS heldur einnig úti leiguskrá húsnæðisgrunns þar sem leigusamningar eru skráðir. Innviðaráðuneytið vinnur nú að stefnu í húsnæðismálum þar sem mörkuð verður skýr stefna um húsnæðisuppbyggingu og skerpt verður á hlutverki HMS hvað varðar gagnasöfnun um húsnæðismarkaðinn og þróun hans.